Hver framkvæmir rannsóknina?
Ráður hefur fengið til liðs við sig tvo öfluga einstaklinga sem sjá um framkvæmd og skipulag verkefnisins.
Aðalheiður Kristbjörg Jensdóttir (hún) er nemi við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn og er að ljúka meistaraprófi í fjölbreytileika- og breytingastjórnun, ásamt sjálfbærum viðskiptum. Aðalheiður hefur í námi sínu fyrst og fremst rannsakað fjölbreytileikastjórnun innan skipulagsheilda þar sem spilling og umhverfisspjöll hafa átt sér stað og mannréttindabrot hafa verið framin. Hún sérhæfir sig í því hvernig hægt er að betrumbæta starfsumhverfi innan skipulagsheilda og ímynd þeirra með fjölbreytileikaáætlunum og innleiðingu þeirra.
Sólveig Rós Másdóttir (hún) er með M.A. í stjórnmálafræði frá University of Victoria í Kanada og er um þessar mundir að ljúka meistaranámi í kynjafræði frá Háskóla Íslands. Sólveig Rós hefur sérhæft sig í hinsegin málum og starfaði lengi sem fræðslustýra Samtakanna ’78. Einnig hefur hún unnið við forvarnir gegn kynferðisofbeldi og hefur því mikla reynslu af fræðslumálum og í að tala um hinseginleikann á mannamáli við fjölbreytta hópa.
Fjölbreytileiki er framtíðin
Hnattvæðing og auknir fólksflutningar hafa leitt til fjölbreyttari starfshópa innan vinnustaða. Einnig er nú áhersla á aðrar hliðar fjölbreytileikans sem ávallt hafa verið til staðar en eru nú í brennidepli með auknum sýnileika hinsegin fólks og fatlaðs fólks, svo að dæmi séu tekin. Þar að auki hefur lagaumhverfið breyst á undanförnum árum með nýrri jafnréttislöggjöf (150/2020) og lögum um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu (86/2018). Lög um kynrænt sjálfræði (80/2019) tryggja einnig rétt einstaklinga til að skilgreina sjálfir kyn sitt og þurfa vinnuveitendur að geta komið til móts við það. Það er því mikilvægt fyrir fyrirtæki og stofnanir að taka mið af þessum þjóðfélagsbreytingum og nýja lagaramma í sinni starfsemi.
Ávinningur fjölbreytileikastjórnunar
Fjölbreytileikastjórnun er sú hugmyndafræði innan stjórnunarfræða sem snýr að því hvernig skipulagsheildir geta aukið virðið sitt með því að stuðla að jafnrétti og fjölbreyttari starfshópi með kerfisbundnum hætti. Til að takast á við þennan aukna fjölbreytileika á vinnumarkaði er nauðsynlegt að stjórnendur taki mið af honum í öllum ákvörðunum bæði þegar kemur að ráðningum, almennu skipulagi starfsstaðarins, og úrvali vara og þjónustu.
Rannsóknir sýna að fjölbreyttar skipulagsheildir ná gjarnan meiri árangri en einsleitar. Þar finnast frekar nýjungar í hugmyndamótun, aukin framleiðni og sjálfbærni. Einnig hefur það sýnt sig að starfsmannaánægja og vellíðan á vinnustað eykst. Þess má geta að þar sem að fjölbreytileikastjórnun er viðhöfð er einnig minni starfsmannavelta og skipulagsheildin sem um ræðir er ólíklegri til að verða fyrir lögsóknum.
Þjónusta
Samhliða verkefninu er Ráður að hanna þjónustu og ráðgjöf á formi fjölbreytileikaáætlanagerða og vinnustofa. Ráður mun meðal annars styðjast við staðalinn ISO 30415:2021 í ráðgjöf sinni til fyrirtækja en staðallinn fjallar um fjölbreytileika og inngildingu á vinnumarkaði (e. human resource management – diversity and inclusion).