fbpx

Hlutverk atvinnurekenda á tímum #metoo

Myllumerkið #metoo og áhrif þess á aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni er flestum kunnugt en síðastliðin ár hafa konur úr hinum ýmsu starfsstéttum fjölmennt undir myllumerkinu á samfélagsmiðlum og lýst kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni sem þær hafa þurft að þola innan sinna raða. Samhliða því sem konur skiluðu skömminni undir merkjum #metoo vörpuðu þær ljósi á hversu víðtækt vandamál kynferðisofbeldi er á hinum almenna vinnumarkaði. Meðvitund um mikilvægi þess að bregðast við þeirri menningu sem #metoo opinberaði hefur með þessu aukist til muna og þar með óhjákvæmilegt fyrir vinnumarkaðinn að líta í eigin barm og bregðast við.

En hvert er hlutverk atvinnurekenda?

Hlutverk atvinnurekenda er að bregðast við og taka afstöðu með heilbrigðu starfsumhverfi. Undanfarin misseri hefur talsvert að gögnum verið aflað til þess að veita yfirsýn yfir stöðu mála sem styðja við markvissar aðgerðir gegn skaðlegri vinnumenningu en það er innan hennar sem ofbeldi og áreitni þrífst hvað best.

Rannsóknir benda til þess að einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni er algeng á íslenskum vinnustöðum. Samkvæmt rannsókn Félagsvísindastofnunar sem birt var árið 2020 hafa rúmlega 2 af hverjum 10 orðið fyrir einelti á vinnustað á vinnuferli sínum, 16% orðið fyrir kynferðislegri áreitni og um 10% kynbundinni áreitni. Konur voru í öllum tilvikum líklegri til að þola slíka hegðun, en 25% kvenna hafði orðið fyrir einelti, 25% höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni og 17% höfðu orðið fyrir kynbundinni áreitni.

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 kveða á um að atvinnurekendur geri sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og notendur þjónustu verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað. Samkvæmt reglugerð félagsmálaráðuneytisins nr. 1009/2015 skulu atvinnurekendur gera skriflega áætlun til að draga úr hættu á að aðstæður skapist sem líkur eru á að leitt geti til eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis á vinnustaðnum. Rannsókn Félagsvísindastofnunnar sem og #metoo frásagnir síðustu ára hafa gert það skýrt að enn er mikið verk að vinna, þrátt fyrir að víða hafi orðið breytingar síðan 2017.

Hagnýtar jafnréttisáætlanir

Atvinnurekendur njóta góðs af því að nýta sér framsæknar jafnréttisáætlanir með skýr markmið og tímasetta verkáætlun til þess að leggja sitt af mörkum við það að uppræta kynbundið ofbeldi og kynferðislega áreitni á vinnumarkaði.

Gagnlegar jafnréttisáætlanir þurfa að innihalda skýr markmið og tímasetta aðgerðaráætlun sem:

  • Skýra stefnu í því hvernig tekið er á málum ef upp kemur kynferðisleg áreitni eða ofbeldi.
  • Stjórnendur og starfsfólk verða að vera upplýst um stefnuna.
  • Skýrir verkferlar um hvernig skuli takast á við þau mál sem kunna að koma upp.
  • Veita starfsfólki og stjórnendum reglulega fræðslu um kynbundið ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni.
  • Vinnustaðir vinni markvisst í því að uppræta skaðlega vinnustaðamenningu m.a. með því að efla fræðslu og umræðu á vinnustaðnum um heilbrigð samskipti, mörk og meðvirkni.

Ráður sérhæfir sig í ráðgjöf og fræðslu í tengslum við stjórnun og stefnumótun með sérstaka áherslu á jafnréttislöggjöf og jafnlaunavottun. Það er mikilvægt að jafnrétti sé samofið daglegum rekstri og ákvarðanatöku í fyrirtækjamenningu. Þess vegna bjóðum við upp á þjónustu við uppsetningu jafnréttisáætlana í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 ásamt reglugerð félagsmálaráðuneytisins nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Scroll to Top

BÓKA RÁÐGJÖF

Loading...