fbpx

Hvað er kynasamþætting

Erum við að tala sama tungumál?

Víða á vettvangi jafnréttismála er fjallað um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða. Jafnréttislög kveða sem dæmi á um samþættingu í skólastarfi þar sem öll áætlunargerð skal vera samþætt kynja- og jafnréttissjónarmiðum. En hvað þýðir þetta í raun og er sameiginlegur skilningur á samþættingu?

Hvað er samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða?

Kynjasamþætting er íslenska heitið yfir enska hugtakið “gender mainstreaming” sem lýsir aðferðafræði við að auka jafnrétti kynjanna.

Hugtakið var fyrst tekið í notkun á alþjóðarvettvangi og hefur verið samþykkt sem gildandi aðferðafræði til þess að auka jafnrétti hjá m.a. Evrópuráðinu og Sameinuðu Þjóðunum síðan um miðjan tíunda áratuginn.

Markmið kynjasamþættingar er að tryggja að hugað sé að kynja- og jafnréttissjónarmiðum á öllum stigum stefnumótunar- og ákvarðanatöku. Til þess að það sé hægt þarf að vera til staðar greinargóð þekking á jafnréttismálum og aðstöðumuni fólks út frá kyni til þess að byggja vinnuna á. Samþætting snýst ekki um að gera alla eins heldur um að fjarlægja hindranir sem takmarka tækifæri og raunverulegt val kynjanna. Þannig má koma í veg fyrir mismunun og vinna að auknu jafnrétti.

Það er því mikilvægt að samhliða markvissri samþættingarvinnu fylgi fræðsla um jafnrétti kynjanna, ólíkri félagsmótun í kynjuðu samfélagi og þeim ólíku félagslegu þáttum sem geta valdið mismunun.

Sjóndeildarhringurinn útvíkkaður

Með því að fjalla um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stað kynjasamþættingar höfum við útvíkkað jafnréttishugtakið og tekið er þannig mið af því að einstaklingi getur verið mismunað á grundvelli annarra félagslegra þátta en kyni. Þá er einnig tekið mið af því að félagslegar aðstæður fólks geta spilað saman og skapað sérstakan grundvöll mismunar. T.d. er mismunun sem fatlaðar konur verða fyrir oftast af öðru eðli en sú mismunun sem fatlaðir karla verða fyrir. Við viljum þó alltaf vera að horfa til stöðu kynjanna samhliða annarra breyta. En við getum spurt okkur hvort það séu hópar sem við séum að gleyma.

Hannað af mér fyrir fólk eins og mig

Til eru mörg ólík dæmi um það hvernig hægt er að vinna að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða.

Í Vínarborg í Austurríki var farin sú leið að rannsaka sérstaklega ferðavenjur kynjanna og notkun þeirra á opinberum rýmum til þess að jafna aðstöðumun þeirra. Vín var upprunalega hönnuð af karlmönnum með þarfir karla í huga: að ferðast á milli heimilis og vinnu í bíl eða með almenningssamgöngum. Rannsóknarvinna borgaryfirvalda leiddi í ljós mjög kynjaðar ferðavenjur þar sem konur gerðu sér margar stuttar ferðir yfir daginn, oft fótgangandi, til þess að sinna m.a. umönnun barna, innkaupum fyrir heimilið og annarra erinda.

Dæmi um umbætur í kjölfar kynjasamþættingarferlis í Vín:

 • Götulýsing var bætt á 26 svæðum sem greindust kvíðavaldandi fyrir konur að ferðast um
 • Umferðarljósum var breytt til þess að forgangsraða gangandi vegfarendum
 • Sætum og bekkjum fjölgað fyrir fótgangandi að hvíla sig
 • Gangstéttir breikkaðar
 • Fjölfarin svæði gerð algerlega hindrunarlaus, m.a. til að koma betur til móts við þarfir hjólastólanotenda og aldraðra

Einnig eru til dæmi um að fyrirtæki hafi beitt aðferðafræði kynjasamþættingar til þess að bæta ráðningarferlið til að höfða til fjölbreyttari hóp umsækjanda og bæta þannig starfshópinn. Dæmi um það sem vinnustaðir geta gert til þess að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið við ráðningar eru:

 • Huga að kynhlutlausri orðanotkun í starfsauglýsingum
 • Líta gagnrýnum augum á þau hæfnisviðmið sem sett eru og hvort þau útiloki umsækjendur af óþörfu. Eru viðmiðin t.d. hönnuð út frá fyrri starfskrafti? Er gerð óþarfa krafa um tungumálakunnáttu?
 • Hæfni umsækjenda metinn í fjölbreyttu teymi

Erum við að tala sama tungumál þegar kemur að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða?

Íslensk jafnréttislöggjöf byggir á viðurkenningu á því að jafnréttis kynjanna sé ekki náð hér á landi. En með löggjöfinni er settur rammi um það hvernig við náum því markmiði að koma á og viðhalda jafnrétti. Þetta skal m.a. gera með samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða.

Öllum vinnustöðum bera að innleiða aðgerðamiðaðar jafnréttisáætlanir í samræmi við kröfur jafnréttislaga. Skýrar jafnréttisáætlanir sem byggja á samþættingu eiga að innihalda:

 • Reglubundna fræðslu um jafnréttismál með fjölbreyttum áherslum út frá mismunandi sjónarmiðum
 • Tryggja aðgengi að kyngreindum gögnum 
 • Sérsniðnar aðgerðir í þágu aukins jafnréttis sem taka mið af þekkingu á  sviði hvers vinnustaðar

Hvað er til ráða?

Ráður sérhæfir sig í ráðgjöf og fræðslu í tengslum við stjórnun og stefnumótun með sérstaka áherslu á jafnréttislöggjöf og jafnlaunavottun. Við bjóðum upp á þjónustu við uppsetningu jafnréttisáætlana í samræmi við íslenska jafnréttislöggjöf, þ.m.t. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 ásamt lögum um stjórnsýslu jafnréttismála nr. 151/2020. Sérfræðingar Ráðar taka við glöðu geði á móti öllum fyrirspurnum og erindum er varða málefnið.

Freyja Barkardóttir

Ítarefni

Jafnréttisstofa

The Guardian – City with a female face

Scroll to Top

BÓKA RÁÐGJÖF

Loading...