Innri úttektir
Innri úttektir eru í stuttu máli sjálfspróf þar sem verið er að kanna hvort raunverulega sé verið að vinna í samræmi við kröfur staðals og eigin verklag.
Skipulag á framkvæmd
Samkvæmt jafnlaunastaðli þarf að skilgreina verklagsreglu fyrir framkvæmd innri úttekta þar sem úttektarferlið er kortlagt og skilgreint. Ferlið þarf að fela í sér mat á því hvort jafnlaunakerfið samræmist tilhögun um stjórnun jafnlaunamála með virkum hætti og einnig þurfa æðstu stjórnendur að fá upplýsingar um niðurstöður, til dæmis á rýnifundum, þar sem niðurstöður skulu nýtast til að auðkenna tækifæri til umbóta og forvarna.
Grunnur að úttektum er úttektaráætlun þar sem skilgreind eru úttektarviðmið, tíðni úttekta og aðferðir. Úttetkaráætlanir skulu taka mið af niðurstöðum fyrri úttekta og mikilvægi ferla.
Helstu aðferðir
- Skrifborðsúttekt – Samræmi ákvarðað með rýni á skjölum og gögnum
- Gólfúttekt – Framkvæmd á athafnasvæði með viðtölum og skoðun á skrám og verklagi
Úttektarviðmið: Safn af kröfum sem verið er að taka út í úttekt. Til dæmis:
- Kröfur jafnlaunastaðals
- Skilgreindar verklagsreglur
- Lagalegar kröfur og aðrar kröfur
- Stefnur og áætlanir
Innri úttektaraðili
Úttekaraðili er einstaklingur með hæfni til að gera úttekt. Hann skipuleggur úttekt og sér um framkvæmd hennar sem og skýrslugerð um niðurstöður. Þetta þarf að vera óháður aðili, þ.e. ekki er málefnalegt að taka út ferla eða atriði sem viðkomandi úttektaraðili hefur aðkomu að.
Tryggja þarf að úttektaraðili hafi fengið viðeigandi þjálfun varðandi tilgang og framkvæmd úttekta. Úttektaraðilar þurfa einnig að vera háttvísir, athugulir, samvinnufúsir og sjálfstæðir.
Stuðningur
Það getur verið mikil áskorun fyrir vinnustaði að auðkenna aðila sem geta sinnt þessu hlutverki. Það er mikilvægt að auðkenna fræðslu og stuðning fyrir innri úttektaraðila. Stuðningur frá ráðgjafa getur falið í sér:
- Sérsniðna og persónulega fræðslu – til taks núna
- Aðstoð við uppsetningu og framkvæmd úttekta