Sveitarstjórnir landsins undirbúa sig nú undir að hefja nýtt kjörtímabil. Það er margt sem þarf að huga að og fjölbreytt málefni sem brenna á metnaðarfullum fulltrúum. Þar á meðal eru jafnréttisáætlanir sem sveitarstjórnum ber að uppfæra á fyrsta ári nýs kjörtímabils.
Ný jafnréttislög tóku gildi í janúar 2021, það er lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 og lög um stjórnsýslu jafnréttismála nr. 51/2020.
Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna eiga við um allt samfélagið og fjalla um það hvernig komið er í veg fyrir mismunun og stuðlað að jafnrétti kynjanna. Þau kveða meðal annars á um jafnréttisáætlanir, jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu.
Í lögum um stjórnsýslu jafnréttismála er fjallað sérstaklega um hlutverk sveitarfélaga. Sveitarfélögum ber að gera áætlun um jafnréttismál sem taka mið af fleiri þáttum en jafnrétti kynjanna, meðal annars skulu jafnréttisáætlanir sveitarfélaga tilgreina aðgerðir til þess að koma sérstaklega í veg fyrir mismunun og þar er vísað í lög nr. 85/2018 og 86/2018 um jafna meðferð óháð kynþætti og jafna meðferð á vinnumarkaði.
- Markmið laga nr. 85/2018: Koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna þannig að hér erum við strax komin með aðra vídd en kyn.
- Markmið laga nr. 86/2018: Að viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.
Breytingar á lagalegum kröfum um jafnrétti
Aukin áhersla er á útvíkkun jafnréttishugtaksins sem endurspeglast í því að þar er nýtt markmið um að vinna gegn fjölþættri mismunun. Fjölþætt mismunun er það að einstaklingi getur verið mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu. Þetta þýðir í raun að við þurfum að vera vakandi fyrir samspili mismunandi félagslegra þátta og stöðu fólks. Einnig er mikilvægt að þekkja hvaða hópar eru sérstaklega í hættu á að verða fyrir mismunun hverju sinni.
Kynrænt sjálfræði varð að lögum árið 2019 sem þýðir að þrjár kynskráningar eru nú heimilar á Íslandi. Hægt er að vera skráð sem kona, karl eða með hlutlausa kynskráningu í Þjóðskrá og því verður að taka mið af að minnsta kosti þremur kynskráningum í öllum skráningareyðublöðum og í birtingu opinberra gagna.
Í jafnréttislögunum er gerð ný krafa til sveitarfélaga um áætlanir um hvernig skuli unnið að kynja- og jafnréttissjónarmiðum við ráðstöfun fjármagns. Þetta krefst þess að sveitarfélög beiti aðferðafræði kynjaðra fjármála til þess að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið við gerð fjárhagsáætlana. Til þess þarf greinargóða þekkingu á stöðu kynjanna og annarra hópa í samfélaginu og hvar mismunun á sér reglulega stað.
Áætlun er einskis nýt án aðgerða
Markmið jafnréttisáætlana er að tryggja að unnið sé markvisst að auknu jafnrétti. Illa ígrunduð áætlun sem hvorki er tímasett, aðgerðamiðuð né með skýra ábyrgðarskiptingu, getur jafnvel grafið undan málstaðnum um aukið jafnrétti vegna þess að fólk sér engan árangur af jafnréttisstarfi. Jafnréttisáætlanir eru grunnforsenda þess að alvöru vinna að auknu jafnrétti geti átt sér stað og því er mikilvægt að þær séu markvissar og aðgerðamiðaðar ef raunverulegur árangur á að nást.
Grein var birt í Fréttablaðinu 9. júní og á vef: Jafnrétti á nýju kjörtímabili