fbpx

Innleiðing og ávinningur jafnlaunastaðals

Staðallinn ÍST 85:2012 Jafnlaunakerfi – Kröfur og leiðbeiningar er lögbundinn frá 1. janúar 2018. Síðan hefur fjöldi fyrirtækja og stofnana innleitt staðalinn og yfir 70 skipulagsheildir hafa öðlast vottað jafnlaunakerfi samkvæmt honum. Samhliða er reynsla og þekking fagaðila, ráðgjafa og aðila á vinnumarkaði að byggjast hratt upp og aðferðafræðin við innleiðingu er í stöðugri mótun.

Gæðastjórnun og málefnalegur launamunur

Ísland stendur framarlega í alþjóðlegum samanburði er snýr að jafnrétti kynjanna. Staðreyndin er samt sú að kynbundinn launamunur er til staðar hér á landi, hvort sem litið er á leiðréttan eða óleiðréttan launamun. Ekki hefur náðst að brúa launabilið þrátt fyrir lög þar að lútandi frá árinu 1976. Hvatinn að gerð jafnlaunastaðals var að skapa umgjörð sem leggur áherslu á málefnaleg sjónarmið við ákvarðanir um laun og önnur kjör. Með því er stefnan sett á að loka launabilinu og útrýma ómálefnalegum launamun kynjanna. Sérstaða jafnlaunastaðalsins er fólgin í tengingu gæðastjórnunar við jafnréttis- og mannauðsmál, sem eru ein mikilvægasta grunnstoð allra skipulagsheilda.

Virði jafnréttis

Hefðbundinn hvati við innleiðingu gæðastaðla er alla jafna sá að auka aðgengi að mörkuðum, auka gæði vöru og þjónustu og auka traust viðskiptavina. Leiðin að þessum markmiðum felst í að skilgreina virði, virðisaukningu og halda utan um virðisaukandi ferla í meginstarfsemi sem og að tryggja að öllum ytri kröfum sé mætt. Með innleiðingu á jafnlaunastaðlinum er verið að skilgreina verklag við ákvörðun launa og virka rýni á stöðu jafnréttismála. Því má líta á innleiðingu sem tækifæri til aukins hagræðis og samræmingar í launamyndun sem er oftar en ekki einn stærsti kostnaðarliður fyrirtækja og stofnana. Einnig eru skýr tengsl á milli stöðu jafnréttismála og starfsánægju. Starfsfólk upplifir aukna starfsánægju ef stefna er skýr og það sér að sanngirni og gangsæi ríkir við ákvarðanir. Ánægja starfsfólks er lykilþáttur í auknu virði og skilar sér með auknu vinnuframlagi, bættu orðspori og síðast en ekki síst í beinum áhrifum á ánægju viðskiptavina.

Skýr forysta skilyrði árangurs

Jafnlaunastaðall, líkt og aðrir stjórnunarstaðlar, leggur ríka áherslu á hlutverk stjórnenda sem ábyrgðaraðila jafnlaunakerfa. Þar sem innleiðing ÍST 85:2012 er drifin af áfram af lagalegri skyldu er nauðsynlegt að vera vakandi fyrir því að jafnlaunastefna- og stjórnun fléttist inn í alla ferla og stefnumótun er varða mannauðs- og launamál. Innleiðing þarf að njóta stuðnings og vera leidd áfram af efsta stjórnunarlagi hverrar skipulagsheildar og skila sér í virkum ferlum í launaákvörðunum. Sannur árangur næst ef forystan er skýr. Það er krafa til æðstu stjórnenda fyrirtækja og stofnana um að láta sig málin varða og taka virkan þátt í stefnumótun og rýni á jafnlaunakerfi.


Greinin birtist í Fréttabréfi Staðlaráðs Íslands, Staðlamáli í maí 2019.

Scroll to Top

BÓKA RÁÐGJÖF

Loading...